Áætlaðar nýframkvæmdir í höfnum landsins uppá 67 milljarða

des 10, 2021

Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki hérlendis upp á ríflega 67 ma.kr. fram til ársins 2031. Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna nýrra viðlegukanta eða um 27 ma.kr., um 15 ma.kr. eru áætlaðir  í fjárfestingar á viðbótar raftengibúnaði vegna orkuskipta og um 10 ma.kr. í landfyllingar fyrir ný hafnarsvæði.

Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu sem Hafnasamband Íslands hefur látið taka saman um framkvæmda- og viðhaldsþörf hjá íslenskum höfnum á komandi árum. Þar kemur einnig fram að viðhaldsþörf hafna innan hafnasambandsins er áætluð liðlega 12 ma.kr. fram til ársins 2025.  Þar er endurnýjun og endurbætur á stálþilum stærsti viðhaldsþátturinn eða upp á nær 5 ma.kr..

Heildarfjárfestingar í nýframkvæmdum í höfnum landsins á árunum 2016-2020 námu liðlega 24,6 ma.kr. Þar af var hlutur hafnarsjóða liðlega 19,5 ma.kr. en hlutur ríkisins um 5 ma.kr. að frátöldum ríkisreknum höfnum.  Nokkrir stærstu hafnarsjóðir landsins eru undirskildir styrk frá ríkinu til fjárfestinga og námu fjárfestingar þeirra sömu hafna um 12,6 ma.kr. af þessum 20 ma.kr. hlut hafnarsjóðanna.

Stóraukin rafvæðing á hafnarsvæðum er stór kostnaðarliður í framkvæmdum hafnarsjóða á næstu árum.  Sem dæmi má nefna að Hafnasamlag Norðurlands gerir ráð fyrir 3,9 ma.kr. fjárfestingu í rafbúnað á næstu 10 árum, allt frá 1,5-2 MW tengingum upp í  8-12 MW. Vestmannaeyjahöfn gerir einnig ráð fyrir 3,9 ma.kr. í rafbúnað vegna orkuskipta á næstu 10 árum og Faxaflóahafnir ætla að fjárfesta í nýjum rafbúnaði vegna orkuskipta uppá liðlega 3,1 ma.kr.  Hafnarfjarðarhöfn gerir ráð fyrir um 1 ma.kr. í rafbúnað vegna orkuskipta þar sem orkuviðbótin verður um 4,4 MW.

Hafnir Ísafjarðarbæjar sjá fram á að fjárfesta í rafbúnaði vegna orkuskipta fyrir um 820 m.kr. en sjóðurinn hefur nú þegar hafið endurbyggingu á Sundabakka þar sem gert er ráð fyrir að setja upp allt að 8 MW tengingu fyrir skemmtiferðaskip. Þá gera Hafnir Vesturbyggðar ráð fyrir að verja um 500 m.kr. í rafbúnað vegna orkuskipta á næstu 10 árum.